Erlent

Talinn hafa skipulagt morðið á Politkovskaju

Minnast Baráttukonu Anna Politkovskaja, sem var myrt árið 2006, er orðin að eins konar táknmynd fyrir baráttu gegn spillingu og ofbeldi gegn andófsfólki í Rússlandi.
Minnast Baráttukonu Anna Politkovskaja, sem var myrt árið 2006, er orðin að eins konar táknmynd fyrir baráttu gegn spillingu og ofbeldi gegn andófsfólki í Rússlandi.
Lögreglan í Rússlandi hefur handtekið fyrrverandi lögreglumann vegna gruns um að hann hafi skipulagt morðið á blaðakonunni Önnu Politkovskaju árið 2006.

Á sínum tíma var Politkovskaja afar gagnrýnin á stefnu stjórnvalda í Kreml, sérstaklega hvað varðar stríðið í Tsjetsjeníu.

Maðurinn sem var handtekinn í gær heitir Dimítrí Pavlúsjenkov, en hann er talinn hafa sett saman hóp til að fremja ódæðið og útvegað meintum byssumanni, Rustam Makmúdov, morðvopnið. Makmúdov, sem er Tsjetsjeni, hefur verið í haldi síðan í maí.

Það þaggar þó ekki niður í þeim sem telja að málið risti dýpra og vilja að upplýst verði hver fyrirskipaði morðið á Politkovskaju. Þegar hafa þrír menn verið sýknaðir af ásökunum um aðild að morðinu, en hæstiréttur landsins hefur vísað málunum aftur til saksóknara.

Talsmaður rannsóknarnefndar, sem hefur umsjón með málinu, sagði að Pavlúsjenkov væri grunaður um að hafa þegið greiðslu frá „óþekktum aðila“ til að skipuleggja morðið.

Politkovskaja var að koma út úr lyftu á heimili sínu þegar hún var myrt, en hún hafði vakið mikla athygli fyrir skörulega framgöngu sína í að afla frétta af ofbeldi, kúgun og spillingu í Tsjetsjeníu og öðrum svæðum í rússnesku Kákasusfjöllunum.

Vladímir Pútín, þáverandi forseti, reyndi að gera lítið úr verkum Politkovskaju eftir morðið, en vandræðagangur með rannsóknina og málareksturinn hefur kynt undir grunsemdum um samsæri allt inn í raðir stjórnarinnar.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×