Skoðun

Sama bókin, sitthvor skatturinn

Kristján B. Jónasson skrifar
Í öllum löndum Evrópska efnahagssvæðisins, með tveimur undantekningum, eru prentaðar bækur í lægsta virðisaukaskattsþrepi eða undanþegnar virðisaukaskatti. Sömu sögu er að segja utan Evrópu. Bækur eru ýmist undanþegnar virðisaukaskatti eða skatturinn hafður í lægsta þrepi, jafnvel í sérstöku undanþáguþrepi. Á Íslandi er lagður 7% virðisaukaskattur á prentaðar bækur, sem er nálægt meðaltalsprósentu EES-landanna.

Röksemdirnar fyrir því að bækur séu seldar með lágri vsk-prósentu eru alls staðar þær sömu: Lág skattlagning á bækur og útgáfu stuðlar að upplýstri umræðu, fjölbreyttri og frjálsri tjáningu og styrkir málsamfélagið. Jafnvel þeir sem tala hundraðmilljónatungur á borð við spænsku og arabísku telja að móðurmáli sínu þrengt og því þurfi að greiða fyrir því að bækur á þessum málum séu ekki of dýrar.

Í flestum löndum heims er sama bókin þó skattlögð með tvennum hætti eftir því hvort hún er stafræn eða gefin út á pappír. Svo er einnig hér. Íslenskir rafbókalesendur geta keypt bækur frá bandarískum netsölum án þess að greiða af þeim virðisaukaskatt. Kaupi þeir íslenskar bækur af íslenskum netsölum þurfa þeir hins vegar að greiða 25,5% virðisaukatt, hæstu virðisaukaskattprósentu í heimi. Það er ekki aðeins sanngjarnt í sjálfu sér að sama bókin beri sama skatt eftir því hvort hún er rafræn eða prentuð. Það er einnig í þágu þeirra markmiða sem lágur skattur á bækur á að ýta undir að náist: að tryggja að út komi sem flestar bækur og um sem flest efni þar sem eins margar skoðanir og hugsast getur eru viðraðar á móðurmálinu.

Í tvígang hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatt þar sem kveðið er á um það réttlætismál að prentaðar bækur og rafbækur skuli allar bera 7% virðisaukaskatt. Væri slíkt frumvarp samþykkt myndi Ísland skipa sér í röð þeirra fáu landa þar sem þetta sanngirnismál hefur náð fram að ganga.




Skoðun

Sjá meira


×