Erlent

Fukushima-aðgerðir ganga vel - verinu verður lokað

Andri Ólafsson skrifar
Kjarnorkuverinu í Fukushima verður lokað þegar björgunaraðgerðum þar lýkur. Þær hafa borið árangur síðustu tvo sólarhringa og því er geislavirkni á svæðinu minni en verið hefur.

Allt kapp er lagt á að koma rafmagni á sjálfvirka kælikerfið í kjarnorkuverinu, á blaðamannafundi í dag greindu upplýsingafulltúrar frá því að nýjar rafmagnslínur hefðu verið lagðar að verinu og að nú eigi að reyna að ræsa kælikerfið.

Störf slökkviliðsmanna virðast hafa skilað árangri en geislavirkni á svæðinu mælist minni en áður. Gufan sem sést stíga frá verinu sýna þó að kjarnakljúfarnir framleiða enn varma og því er enn hætta á ferð.

En björgunarstörfin eru unnin víða í Japan. Í morgun náðu hjálparsveitir að koma 80 ára gamalli konu og 16 ára barnabarni hennar til bjargar. Þau höfðu verið föst í húsi sem hrundi í borginni Ishinomaki frá því að skjálftinn reið yfir fyrir 9 dögum.

Ungi maðurinn náði að losa sig og komast upp á þak og náði þannig að láta vita af sér og ömmu sinni.

12 þúsund manns er enn saknað í Japan á meðan staðfest dauðsföll er 8100. Tæplega 500 þúsund manns misstu heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×