Innlent

Í hverju eru breytingar á stjórnarráði Íslands fólgnar?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur frumvarpið. Nokkrar samningaviðræður kostaði að fá frumvarpið úr nefnd, meðal annars var því bætt inn að ríkisstjórnarfundir skyldu hljóðritaðir. Minnihlutinn skilaði tveimur álitum.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur frumvarpið. Nokkrar samningaviðræður kostaði að fá frumvarpið úr nefnd, meðal annars var því bætt inn að ríkisstjórnarfundir skyldu hljóðritaðir. Minnihlutinn skilaði tveimur álitum. Mynd/GVA
Í hverju eru breytingar á stjórnarráði Íslands fólgnar? Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarráði Íslands er til umræðu á Alþingi. Óhætt er að segja að á því séu skiptar skoðanir og þingmönnum liggur mikið á hjarta um málið, sem rætt hefur verið fram á nótt. Það er til annarrar umræðu og vonast ríkisstjórnin til þess að hægt sé að klára það á þingstubbnum sem nú stendur yfir.

Stærsta breyting frumvarpsins varðar málefni ráðuneyta. Í núgildandi lögum eru þau talin upp með tæmandi hætti og til þess að sameina ráðuneyti, fækka eða fjölga, verður að fá samþykki Alþingis.

Samkvæmt frumvarpinu verður breyting þar á; aðeins verður kveðið á um hámarksfjölda ráðuneyta, það er tíu, en það er síðan sett í hendur ríkisstjórn hverju sinni hver þau ráðuneyti eru. Þetta þýðir að forsætisráðherra getur kveðið á um sameiningu og breytingar á ráðuneytum án þess að fá til þess heimild Alþingis.

Þetta hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt og sagt færa vald frá Alþingi til forsætisráðherra. Það sé gegn niðurstöðu rannsóknarskýrslu Alþingis, sem kveðið hafi á um eflingu löggjafarvaldsins. Margir stjórnarandstæðingar hafa tekið til máls og ýjað að því að með þessu sé verið að þjappa valdi óeðlilega mikið saman á hendur þess sem gegni embætti forsætisráðherra hverju sinni.

Stjórnarliðar hafa vísað til þess að þetta sé í samræmi við það sem gerist í hinum Norðurlandaríkjunum, að Finnlandi undanskildu. Þá sé forsætisráðherra ekki einráður í ríkisstjórnum og því sé ákvörðun um breytingar háð samþykki stjórnarflokka. Forseti Íslands þurfi eftir sem áður að samþykkja breytingarnar.

Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar, sem nú fer fyrir málinu, segir að samkvæmt rannsóknarskýrslunni megi ætla að forsætisráðherra ætti að hafa víðtækara forystu- og stjórnunarhluterk í ríkisstjórn. Heimildir hans til að fela öðrum ráðherrum hluta af valdi sínu sé takmörkuð.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um skipan ráðherranefnda, en þær eiga að nýtast við samhæfingu starfa á milli ráðuneyta. Einnig er kveðið á um stjórnunar- og eftirlitsskyldu ráðherra með lægra settum stjórnvöldum.

Þá er kveðið á um hæfnisnefndir við skipan ráðuneytisstjórna og skrifstofustjóra í ráðuneytum. Heimildir ráðherra til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta vegna tímabundinna verkefna er einnig aukin.

Líkt og áður segir lýtur gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst að því að verið sé að flytja vald frá Alþingi til forsætisráðherra. Einnig hefur verið sett spurningarmerki við hámarksfjölda ráðuneyta hverju sinni.

Stjórnarandstæðingar hafa ýjað að því að frumvarpið sé sett til höfuðs Jóni Bjarnasyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Færa eigi forsætisráðherra vald til breytinga á ráðuneytum svo hann geti búið til nýtt atvinnuvegaráðuneyti og lagt ráðuneyti Jóns niður.

Sjálfur hefur Jón þvertekið fyrir þá skýringu, enda sé það ekki skynsamlegt að leggja landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið niður. Hann sé hins vegar á móti frumvarpinu þar sem það dragi úr valdi Alþingis. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×