Innlent

Einhuga um að tjá sig ekki í bili

Kvikmyndaskólinn glímir við fjárhagsvanda og hefur ekki enn verið settur í haust. Nemendur hafa mótmælt því harðlega.
Kvikmyndaskólinn glímir við fjárhagsvanda og hefur ekki enn verið settur í haust. Nemendur hafa mótmælt því harðlega. Mynd/Valli
„Þetta var góður og mikilvægur fundur," segir Sigrún Gylfadóttir, deildarstjóri leiklistardeildar Kvikmyndaskóla Íslands, sem fer fyrir sáttanefnd á vegum skólans er í gær hitti Svandísi Svavarsdóttur menntamálaráðherra.

Ekkert fæst uppgefið um það hvað gerðist efnislega á fundinum í gær. „Við gerðum samkomulag okkar á milli, við Svandís og ráðuneytið, að tjá okkur ekki um málið að svo stöddu. Þetta er mjög viðkvæmt. Við erum öll að vinna saman að því að reyna að finna lausn og ætlum að gefa okkur vinnufrið þessa vikuna," segir Sigrún og bætir við að nóg hafi verið fjallað um málefni skólans að undanförnu.

Hvorki náðist tal af menntamálaráðherra né aðstoðarmanni ráðherrans eftir fundinn í gær. Að sögn Sigrúnar verður næst fundur á föstudag.

Í yfirlýsingu sem stjórn Kvikmyndaskólans sendi frá sér fyrir fundinn í gær sagði að þar sem Ríkisendurskoðun hefði ekki gert athugasemd við umsýslu fjármuna í rekstri skólans gæti menntamálaráðuneytið gengið strax til samninga við skólann. Ráðuneytið hefur þó áður sagt að þetta breyti engu um að skólinn uppfyllti ekki skilyrði um rekstrarhæfi og að rekja mætti fjárhagsvanda hans til þess að nemendum hefði verið fjölgað langt umfram viðmið styrktarsamnings.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×