Innlent

Vilja vísa tillögu um staðgöngumæðrun frá

sigríður ingibjörg ingadóttir
sigríður ingibjörg ingadóttir
Lagt hefur verið til á Alþingi að þingsályktunartillögu um skipun starfshóps sem semja á frumvarp um heimilun staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni verði vísað frá. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Mörður Árnason, þingmenn Samfylkingarinnar, lögðu frávísunartillöguna fram í gær.

„Sú tillaga sem liggur fyrir þingi gengur mjög langt. Hún er í raun og veru tillaga um það að lagt verði fram frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun. Ég er alfarið á móti því og tel að umræðan um málið sé alltof skammt á veg komin, eins og fram kemur í flestum umsögnum um tillöguna," segir Sigríður Ingibjörg og bætir við:

„Ég tel það algjörlega fráleitt að Alþingi afgreiði á nokkrum klukkustundum umræðu eins og þessa sem varðar grundvallarmannréttindi og alvarlegar siðferðisspurningar."

Þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun var lögð fram í nóvember í fyrra af átján þingmönnum úr öllum flokkum nema Hreyfingunni. Fyrsti flutningsmaður hennar er Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sjálfstæðisflokki.

Tillagan var afgreidd úr heilbrigðisnefnd 6. september og bíður nú þriðju umræðu á þingi. Meirihluti heilbrigðisnefndar mælti með tillögunni. Sigríður Ingibjörg og Mörður stóðu hins vegar ásamt Þuríði Backman að minnihlutaáliti þar sem lagst var gegn samþykki.

Samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði í janúar er mikill meirihluti landsmanna fylgjandi því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði heimil. Meirihluti umsagnaraðila um þingsályktunartillöguna var hins vegar á öðru máli.

Samkomulag hefur náðst um þinglok sem verða í dag ef allt fer að óskum. Því verður frávísunartillagan sennilega tekin fyrir í dag.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×