Skoðun

Hagvöxtur & ávöxtun

Már Wolfgang Mixa skrifar
Hagvöxtur er drifinn áfram af tveimur þáttum: Fjölgun einstaklinga í þjóðfélaginu sem skapa verðmæti og aukinni framleiðni, þá oftast vegna tækniframfara. Þessi hagvöxtur hefur haldist afar jafn í Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Árleg magnbreyting á milli ára var rúmlega 3% á áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Síðustu tíu ár var hún aftur á móti einungis 1,6% þrátt fyrir gífurlega þenslu í útlánum og alla þá tæknibyltingu sem fylgdi komu veraldarvefsins. Tölur fyrir Evrópu eru svipaðar. Miðað við rúmlega 1% árlega fjölgun íbúa þá hefur árleg framleiðni hverrar manneskju í Bandaríkjunum lækkað úr 2% niður í ½%. Tölur á Íslandi eru aðeins hærri síðustu tíu ár en eru óðum að nálgast meðaltal helstu viðskiptaþjóða okkar, sem þýðir að hagvöxtur er óðum að dragast saman.

Aukning þjóðarframleiðslu yfir lengri tíma helst í hendur við raunhæfa ávöxtun verðbréfa, hvort sem um er að ræða hlutabréf eða skuldabréf. Í Bandaríkjunum hefur söguleg nafnávöxtun verðbréfa verið rúmlega 6%, sem endurspeglar aukningu þjóðarframleiðslunnar í dollurum talið. Af þeirri tölu er u.þ.b. helmingur tilkominn vegna verðbólgu; hinn helmingurinn kemur fram í aukinni magnaukningu þjóðfélags sem lýst er að ofan. Þessi hluti endurspeglar þá raunávöxtun sem fjárfestar hafa notið í fortíðinni og geta vænst í framtíðinni.

Minni hagvöxtur kemur til með að hafa óhjákvæmileg áhrif varðandi framtíðarvæntingar. Á Íslandi á slíkt líklegast helst við lögbundna 3,5% ávöxtunarkröfu gerða til lífeyrissjóða (og er lægsta viðmiðunartalan á yfirlitum séreignasparnaðar varðandi framtíðareign), þó svo að hagvöxtur hafi yfir tíu ára tímabil ekki náð slíkum hæðum í 30 ár.

Tvennt er í boði. Hægt er að horfast í augu við þær staðreyndir að í óbreyttu ástandi eru framtíðarvæntingar óraunhæfar. Slíkt kallar á endurmat lífeyrissparnaðar. Hinn kosturinn, sem er síst auðveldari, felur í sér að uppbygging íslensks atvinnulífs komist undan viðjum pólitískra áhrifa. Fjárfestingar þurfa að mynda nauðsynlega raunávöxtun sem til lengri tíma þjónar hagsmunum íslensku þjóðarinnar í heild.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×