Viðskipti innlent

Hreyfing á söluferli Icelandic

icelandic group Framtakssjóður Íslands á 81 prósents hlut í fyrirtækinu.
icelandic group Framtakssjóður Íslands á 81 prósents hlut í fyrirtækinu.
Icelandic Group hefur hafið einkaviðræður við kanadíska fisksölufyrirtækið High Liner Foods um sölu á starfsemi sinni í Bandaríkjunum og tengdri starfsemi í Kína. Þetta fékkst staðfest frá Icelandic Group í gærkvöldi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa viðræðendur sett sér 30 daga tímaramma til að komast að samkomulagi.

Icelandic Group er að stærstum hluta í eigu Framtakssjóðs Íslands en söluferli bandarísku starfseminnar hófst í júlí. Frestur til að skila inn tilboðum rann út 28. september síðastliðinn.

Fréttablaðið greindi frá því í lok september að sex erlend fyrirtæki hefðu haft hug á að leggja fram tilboð í starfsemina. Þeirra á meðal var kínverska fiskvinnslufyrirtækið Pacific Andes sem keypti starfsemi Icelandic Group í Frakklandi og Þýskalandi í júní.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru þrjú tilboð tekin til alvarlegrar skoðunar:

tilboð High Liner Foods og tilboð frá bandaríska fiskvinnslufyrirtækinu Trident Seafoods Corporation og frá suður-kóreska fiskvinnslufyrirtækinu Dongwon Industries.

Fréttavefurinn Intrafish hafði eftir heimildum í gær að söluverð í kringum 28 milljarða króna væri til viðræðu en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er sú tala heldur í hærri kantinum. Þá leggur Icelandic Group talsverða áherslu á það í viðræðunum að halda eftir vörumerki félagsins. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×