Enski boltinn

Liverpool-menn streyma til Frakklands - Poulsen til Evian

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Poulsen og Kenny Dalglish.
Christian Poulsen og Kenny Dalglish. Mynd/Nordic Photos/Getty
Christian Poulsen, fyrirliði danska landsliðsins, hefur fundið sér nýjan samanstað enda löngu orðið ljóst að það var ekki pláss fyrir hann á miðju Liverpool. Líkt og hjá Joe Cole þá endar Poulsen í Frakklandi.

Christian Poulsen skrifaði í dag undir samning við nýliða Evian í frönsku deildinni. Evian-liðið hefur náð í fimm stig út úr fyrstu fjórum leikjunum og situr í 14. sæti deildarinnar. Frægasti leikmaður liðsins er örugglega  Sidney Govou, fyrrum landsliðsmaður Frakka.

Poulsen kom til Liverpool frá Juventus síðasta sumar eftir tvö slök tímabil í ítalska boltanum. Honum tókst ekki að lífga við ferill sinn á Anfield og lék aðeins tólf deildarleiki með liðinu.  Kenny Dalglish vildi frekar nota Jay Spearing í fyrra og keypti síðan fullt af miðjumönnum í sumar.  

Christian Poulsen, sem er 31 árs gamall varnartengiliður,  átti sín bestu ár með spænska liðinu Sevilla frá 2006 til 2008 þar sem hann vann spænska bikarinn,  Ofurbikar UEFA, spænska Ofurbikarinn og UEFA-bikarinn. Hann lék áður með Schalke í Þýskalandi, fór frá Sevilla til Juventus, svo til Liverpool og mun nú reyna fyrir sér í franska boltanum. Hann hefur því spilað í fimm stærstu deildunum í Evrópu á sínum ferli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×