Erlent

Á erfitt verk fyrir höndum

Lúkas Papademos Setti ströng skilyrði fyrir þátttöku sinni í stjórninni.
Lúkas Papademos Setti ströng skilyrði fyrir þátttöku sinni í stjórninni.
Lúkas Papademos verður að öllum líkindum forsætisráðherra nýju bráðabirgðastjórnarinnar í Grikklandi, sem næstu vikurnar þarf að koma í framkvæmd óvinsælum aðhaldsaðgerðum í tengslum við björgunarpakka ESB. Skipun stjórnarinnar er hins vegar ekki lokið, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna ráðherrastöðurnar.

Papademos er fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Evrópusambandsins og var áður seðlabankastjóri Grikklands.

Samkvæmt grískum fjölmiðlum var Papademos tregur til og gerði ákveðnar kröfur, meðal annars um ráðherraval. Hann vildi einnig tryggja að nýi meirihlutinn stæði þétt að baki sér við þau erfiðu verk sem fram undan eru:

„Ég undirritaði inngöngu Grikklands á evrusvæðið og ég ætla ekki að verða sá sem undirritar útgöngu þess.“

Nýja stjórnin verður skipuð tveimur stærstu flokkum Grikklands, sem áratugum saman hafa verið höfuðandstæðingar í grískum stjórnmálum; sósíalistaflokknum Pasok, sem hefur tekist á við afleiðingar efnahagshrunsins, og íhaldsflokknum Nýju lýðræði, sem var við stjórnvölinn þegar fjármál ríkisins fóru úr böndunum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×