Innlent

Kjötskortur hækkar lán heimila

finnur árnason
finnur árnason
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir kjötskort hafa hækkað lán heimilanna um 7,6 milljarða króna. Framleiðendur hafi hækkað verð á allri kjötvöru langt umfram verðlagsþróun. Það hafi áhrif á vísitöluna.

Finnur hélt erindi á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins á fimmtudag. Hann sagði frá því hvernig umkvörtun hans í sumar um kjötskort hefði verið gagnrýnd. Þingmenn og hagsmunaaðilar hefðu sagt vera nóg af kjöti í landinu. Það breytti þó ekki þeirri staðreynd að erfiðlega hefði gengið með að fá kjöt til sölu í Bónusbúðunum.

„Fimm af sex afurðastöðvum landsins gátu ekki selt kjötvinnslu okkar lambakjöt vegna skorts á þessum tíma. Ein var tilbúin til að selja okkur takmarkað magn á verulega hærra verði en vikuna áður en hinn meinti kjötskortur átti sér stað og þeim kaupum fylgdu skilyrði.“

Á þeim tíma hafi verið skortur á lamba- og nautakjöti auk þess sem sýkingar í kjúklingaframleiðslu gerðu það að verkum að ítrekað vantaði kjúklingakjöt. „Markvisst hafði verið dregið úr svínakjötsframleiðslu og verð hækkað.“

Kjöt vegur um 2,62 prósent af vísitölugrunninum og Finnur segir verðhækkun hafa haft 0,7 prósent vísitöluáhrif. Skuldir heimilanna hafi í júní verið 1.300 milljarðar króna. „Viðbótarhækkun vísitölunnar vegna kjötskorts um 0,57 prósent hækkar þessi lán heimilanna um 7,6 milljarða króna.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×