Innlent

Telur aðdróttanir ærumeiðandi

Tap á rekstri Leikfélags Akureyrar á síðasta ári nam um 67 milljónum króna.
Tap á rekstri Leikfélags Akureyrar á síðasta ári nam um 67 milljónum króna.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar ætlar að skoða réttarstöðu sína vegna þess sem hann kallar ærumeiðandi aðdróttanir í skýrslu um ófarir leikfélagsins.

Egill Arnar Sigurþórsson, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra frá ágúst 2008 til júlíloka 2011, segir í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum að ekki sé hægt að skilja orðalag í skýrslunni öðruvísi en að þar sé hann sakaður um fjárdrátt. Það segir hann algera fásinnu, hann hafi greitt af eigin reikningi til að standa skil á greiðslum fyrir félagið.

Egill segir að hann beri ekki einn ábyrgð á slæmri stöðu leikfélagsins. Við gerð fjárhagsáætlana hafi aðeins verið gert ráð fyrir öruggum tekjum, og því hafi þurft að velja góð leikverk til að stoppa í stórt gat. Það hafi ekki tekist.

Þá segir Egill leikstjóra félagsins hafa valið að fara með sýningu til Reykjavíkur og setja upp Rocky Horror þrátt fyrir varnaðarorð sín og annarra hjá félaginu.

„Ég skorast ekki undan því að taka ábyrgð á því sem mér ber í þessu sambandi en það virðist deginum ljósara að enginn annar þeirra sem höfðu aðkomu að málinu telur sig þurfa að gangast við sinni ábyrgð," segir Egill í yfirlýsingu sinni. -bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×