Menning

Kertaljósatónleikarnir hafnir

Cammerarctica heldur kertaljósatónleika í Kópavogskirkju í kvöld, Garðakirkju á miðvikudagskvöld og í Dómkirkjunni í Reykjavík á fimmtudag.
Cammerarctica heldur kertaljósatónleika í Kópavogskirkju í kvöld, Garðakirkju á miðvikudagskvöld og í Dómkirkjunni í Reykjavík á fimmtudag.
Hin árlega kertaljósatónleikaröð Kammerhópsins Camerarctica hófst í gær.

Hópurinn hefur leikið ljúfa tónlist eftir Mozart við kertaljós í kirkjum landsins í átján ár.

Í ár verða leiknar tvær af perlum Mozarts, óbókvartettinn og flautukvartett í D-dúr. Einnig verður leikinn kvintett eftir J.C.Bach fyrir flautu, óbó og strengi. Að venju rekur Camerarctica smiðshöggið á tónleikana með því að leika jólasálminn „Í dag er glatt í döprum hjörtum" úr Töfraflautunni eftir Mozart.

Fyrstu kertaljósatónleikarnir voru í Hafnarfjarðarkirkju í gærkvöldi; þeir næstu verða í Kópavogskirkju í kvöld, þeir þriðju í Garðakirkju á miðvikudagskvöld en fjórðu og síðustu tónleikarnir verða í Dómkirkjunni í Reykjavík á fimmtudagskvöld.

Tónleikarnir eru klukkustundarlangir og hefjast þeir allir klukkan 21. Almennur aðgangseyrir er 2.500 krónur en 1.500 krónur fyrir nemendur og eldri borgara. Frítt er inn fyrir börn. Miðasala er við innganginn.

Cammerarcticu skipa að þessu sinni þau Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Guðrún Þórarinsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari en gestur á tónleikunum er Daði Kolbeinsson óbóleikari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.