Erlent

Opið öllum en nýtist hernum

Á braut um jörðu Sex kínverskum gervitunglum verður skotið á braut um jörðu á næsta ári.Nordic photos/Getty
Á braut um jörðu Sex kínverskum gervitunglum verður skotið á braut um jörðu á næsta ári.Nordic photos/Getty
Kínversk stjórnvöld hafa gangsett staðsetningarnet sem gegna mun sama hlutverki og GPS-staðsetningarkerfið. Kerfið verður opið almenningi eins og GPS-kerfið en mun gera kínverska herinn óháðan bandarískum gervitunglum sem hægt er að loka fyrir.

Enn sem komið er virkar kerfið, sem kallast Beidou, aðeins í Kína en fyrir lok næsta árs er ætlunin að það nái til allrar Asíu. Beidou hefur verið í þróun frá árinu 2000 og áformað er að það nái til heimsins alls árið 2020.

Til að svo megi verða þarf að koma miklum fjölda gervitungla á braut um jörðu. Alls verður sex nýjum gervitunglum skotið á loft á næsta ári.

Forsvarsmenn Beidou-kerfisins segja skekkjumörkin um tíu metra. Talið er víst að með aðgangi sem kínverski herinn hefur að kerfinu sé nákvæmnin meiri, samkvæmt frétt BBC um málið.

Kerfið nýtist meðal annars til að miða stýriflaugum, og hafa sérfræðingar bent á að með því megi gera árásir á Taívan og önnur nágrannaríki Kína. Þá er kerfið nauðsynlegt til að nota mannlausar flugvélar.

Kínverjar eru þriðja þjóðin sem hefur komið sér upp tækni af þessu tagi. Auk GPS-kerfisins sem Bandaríkin eiga rekur Rússland sitt eigið kerfi, Glonass. Þá vinnur Evrópska geimvísindastofnunin að þróun staðsetningarnets sem fengið hefur nafnið Galileó.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×