Viðskipti innlent

Bernhöftsbakarí verður opið enn um sinn

Bernhöftsbakarí Eftir 78 ára sögu í Bergstaðastræti og þar af 28 ár á númer 13 er framtíð Bernhöftsbakarís í götunni í algerri óvissu.Fréttablaðið/Pjetur
Bernhöftsbakarí Eftir 78 ára sögu í Bergstaðastræti og þar af 28 ár á númer 13 er framtíð Bernhöftsbakarís í götunni í algerri óvissu.Fréttablaðið/Pjetur
„Ég held bara áfram að vera hérna í rólegheitunum," segir Sigurður Már Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi, sem ætlar ekki að flytja starfsemina úr Bergstaðastræti 13 þótt leigusamningurinn renni út um áramótin.

Eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu í nóvember hafa eigandi Bergstaðastrætis 13 og eigendur Bernhöftsbakarís hvorki náð saman um nýjan leigusamning né kaupa bakarísins á húsnæðinu sem verið hefur starfsstöð þess í 28 ár.

Sigurður Már segir ekkert hafa gerst í málinu að undanförnu enda talist menn ekki við. Vilji eigandinn fá hann út þurfi hann að fá samþykkta útburðarbeiðni. „Þetta eru eflaust miklar lögfræðilegar flækjur. Svo er nú dómskerfið allt á hvolfi," segir bakarameistarinn sem kveðst eiga von á að þurfa að fara út í fyrsta lagi á vormánuðum.

Guðmundur Már Ástþórsson, einn þriggja eigenda Mótamanna ehf. sem eiga Bergstaðastræti 13, segir að þar sem leigusamningurinn sé runninn út og ekki hafi verið óskað eftir endurnýjun samningsins eða kaup á húsnæðinu þá gefur það auga leið að Bernhöftsbakarí hljóti að vera að fara. Ekki sé hægt að segja til um hvenær það verði. „Við munum einfaldlega fylgja öllum lögum og reglum í þessu máli sem og öðrum," segir Guðmundur um framhaldið.

- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×