Innlent

Svarar bréfi með áminningu

Aðstoðarmaður ráðherra segir undarlegt að bréf til ráðuneytis birtist fjölmiðlum degi áður en það er dagsett.
Aðstoðarmaður ráðherra segir undarlegt að bréf til ráðuneytis birtist fjölmiðlum degi áður en það er dagsett.
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sendu bréf til landbúnaðarráðuneytisins í gær, þess efnis að svínabændur væru nú að hækka svínakjötsverð sökum viðvarandi kjúklingaskorts í búðum.

„Sú staða sem uppi er í kjúklingaframleiðslunni hefur leitt það af sér að svínakjötsframleiðendur sjái sér nú leik á borði og tilkynna ítrekað hækkun á svínakjöti til verslana [...]," segir í bréfinu.

Tíðar salmonellusýkingar í kjúklingabúum hafa orðið til þess að borið hefur á kjúklingaskorti á markaðnum og birgðir hafa minnkað gífurlega. Fyrir áramót bauð ráðuneytið út 200 tonna innflutningskvóta á erlendum kjúklingi í ljósi aðstæðna.

„Það er alveg ljóst að ráðuneytið hefur brugðist við," segir Bjarni Harðarson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra. „Verðbreytingar á svínakjötsmarkaði eru ekki á neinn hátt á ábyrgð ráðuneytisins."

Fréttastofa Stöðvar 2 birti bréf SVÞ í kvöldfréttum sínum 6. janúar en það vekur athygli Bjarna að bréfið er dagsett í gær, hinn 7. janúar, sama dag og það barst ráðuneytinu. „Ég er mjög undrandi á því að sjá bréf til ráðuneytisins í sjónvarpinu sem hefur í raun ekki verið skrifað," segir hann. „Hingað barst bréfið ekki fyrr en 7. janúar."

Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri ráðuneytisins, svaraði bréfi SVÞ í gær og vakti meðal annars athygli á þeim 200 tonnum af tollkvóta af erlendum kjúklingi sem boðin voru út í lok ársins.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×