Erlent

Papandreou til í að segja af sér - þúsundir mótmæla í Aþenu

MYND/AP
George Papandreou forsætisráðherra Grikklands segist tilbúinn að stíga til hliðar eða að mynduð verði þjóðstjórn í landinu en mikil mótmæli eru nú í miðborg Aþenu. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann í dag á þarlendri sjónvarpsstöð og sagðist hann reiðubúinn til þess að skoða allt sem komið gæti friði á í landinu að nýju.  Grímuklæddir mótmælendur hafa í allan dag staðið í átökum við lögregluna og látið múrsteinum og glerflöskum rigna yfir óeirðalögreglumenn sem reyndu að ná stjórn á aðaltorgi borgarinnar.

Mótmælin hófust í morgun og voru friðsamleg til að byrja með en fyrir mótmælendum vakti að umkringja þinghúsið til þess að koma í veg fyrir að þingmenn kæmust inn til þess að ræða niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar. Tillögunum er ætlað að rétta af bágan efnahag landsins.

Áður en tugþúsundir mótmælenda mættu á svæðið hafði lögreglan hinsvegar orðið fyrri til og sett upp stálgirðingu hringinn í kring um húsið. Hluti mótmælendanna hóf þá átök við lögregluna og við aðra mótmælendur sem vildu halda aðgerðunum á friðsömum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×