Innlent

Skilyrði Orkustofnunar gæti seinkað Reykjanesvirkjun

Skilyrði sem Orkustofnun hefur sett fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar eykur virkjunarkostnað og gæti seinkað framkvæmdum. Smíði álversins í Helguvík hangir á spýtunni.

Stækkun Reykjanesvirkjunar um 80 megavött átti að vera fyrsta verkefnið til að útvega raforku til álvers Norðuráls í Helguvík. Það hefur hins vegar dregist að HS Orka fengi virkjunarleyfi þar sem sérfræðingar Orkustofnunar hafa efast um að jarðhitasvæðið stæði undir meiri orkuvinnslu.

Nýjasta borholan á Reykjanesi, sem látin var blása í haust, hefur ekki náð að eyða þessum efasemdum að fullu. Engu að síður ákvað Orkustofnun fyrir áramót að kynna HS Orku drög að virkjunarleyfi. Þar er, samkvæmt heimildum Stöðvar 2, meðal annars sett það skilyrði fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar að orkan, sem fóðra á virkjunina, verði sótt í stærri jarðhitageymi en áður var áformað í því skyni að tryggja betur nægilega orkugetu til framtíðar.

Viðræður standa nú yfir milli Orkustofnunar og HS Orku um hvernig þessu skilyrði verður mætt. Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, segir ljóst að þetta þýði meiri kostnað og hugsanlega seinkun framkvæmda. Hann segir þó ekki hægt að nefna neinar tölur né tímaáætlanir í því sambandi.

Skilyrðið veldur því meðal annars að bora þarf dýpri holur og hugsanlega einnig fleiri skáboraðar holur. Kostnaður við einstaka borholur gæti þannig hækkað úr 300 milljónum króna upp í 500 milljónir. Þar sem áformað er að bora allt að tíu holur í viðbót má ætla að aukakostnaður gæti skipt verulegum fjárhæðum.

Þá er ekki ljóst hvort þetta kallar á nýtt skipulagsferli og umhverfismat, en slíkt gæti valdið verulegri seinkun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×