Innlent

Fagnar yfirlýsingu forsætisráðherra

Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins.
Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins.
Forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins fagnar yfirlýsingu forsætisráðherra að leiða eigi til lykta deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið á nýju ári. Hann er hins vegar uggandi yfir því hvaða leiðir verða farnar í þessu skyni.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætiráðherra, lýsti því yfir áramótaávarpi sínu að leiða eigi til lykta deilur um auðlindamál á nýju ári og tryggja að arðurinn renni með sanngjarnari hætti en verið hefur til allra Íslendinga.

„Við þurfum að ná sátt um nýjan grunn að sjálfbærri og sanngjarnri stefnu varðandi dýrmætustu auðlindir þjóðarinnar, meðal annars um fiskveiðistjórnunarkerfið," sagði Jóhanna Sigurðardóttir í áramótaávarpi sínu.

Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins, fagnar yfirlýsingu forsætisráðherra.

„Það er löngu tímabært að það verði gert, en svo er uggur í manni yfir því hvaða aðferðir verða notaðar við það, hvað kemur út úr þessu."

Árni segir að óvissan um framtíð fiskveiðistjórnunar-kerfisins hafi valdið gríðarlegum vandræðum.

„Það blasir við öllum sem hugsa um þessi mál að þetta getur ekki gengið til lengdar. Menn vita ekkert um framtíðina. Hvorki gagnvart veiðiheimildum né síður varðandi endurnýjun skipa og búnað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×