Innlent

Vegleg blót hjá Íslendingafélögum

Strákarnir í Skítamóral komu fram á þorrablóti Íslendingafélagsins í Ósló um helgina.
Strákarnir í Skítamóral komu fram á þorrablóti Íslendingafélagsins í Ósló um helgina. Mynd/Anton Brink

„Það hefur bæst við fólk jafnt og þétt síðasta ár, á meðan ég hef verið formaður,“ segir Haraldur Karlsson, formaður Íslendingafélagsins í Ósló.

Starfsemi Íslendingafélaga víða um heim er í miklum blóma um þessar mundir. Haraldur segir stöðuga fjölgun vera í félaginu í Ósló, enda margir Íslendingar sem hafa flust þangað í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi. Það ganga þó ekki allir sem flytja út í félagið.

„Ekki eins margir og ég hefði viljað, en flestir hafa eitthvað samband,“ segir hann. „Þó þeir gangi ekki í félögin þá mæta þeir á bjórkvöld, fá hjálp við að leita sér að vinnu og reyna að kynnast Íslendingunum.“

Þorrablót voru haldin í Íslendingafélögunum í Ósló í Noregi og í Árósum í Danmörku um helgina. Strákarnir í Skítamóral og stórsöngvarinn Eiríkur Hauksson komu fram í Ósló, en poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson kom fram á blótinu í Árósum sem Pétur Jóhann Sigfússon stýrði. Haraldur var ánægður með hvernig til tókst í Ósló. „Fólk var svo ánægt með Skíta­móral í fyrra að við fengum þá aftur – og þeir brugðust okkur ekki,“ segir hann.

Fjölmörg þorrablót verða haldin á næstunni hjá Íslendingafélögum, til dæmis í New York 26. febrúar þar sem hljómsveitin Valdimar kemur fram. Þá heldur félag Íslendinga í London blót sama dag með hljómsveitinni Bermúda. - afb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×