Innlent

Vonast eftir undirritun samninga um kísilver á föstudag

Vonir standa til að unnt verði að undirrita á föstudag samninga um átján milljarða króna uppbyggingu kísilvers í Helguvík. Áformað er að framkvæmdir hefjist eftir þrjá mánuði.

Kísilverinu hefur verið mörkuð lóð við höfnina í Helguvík en bandarískt fyrirtæki hefur ásamt íslenskum samstarfsaðilum undirbúið verkefnið í fjögur ár. Eins og Stöð 2 skýrði nýlega frá voru samningaviðræður komnar á lokastig í janúarmánuði. Ekki tókst að ljúka þeim þá, eins og vonast hafði verið til, en nokkrir lausir endar, sem sneru einkum að fjárfestingarsamningi við ríkið, komu í veg fyrir undirskrift.

Nú herma upplýsingar fréttastofu að svo vel gangi að binda endahnútana að menn sjái nú fram á undirritun allra samninga næstkomandi föstudag, þeirra á meðal orkusamninga við Landsvirkjun og HS Orku. Kísilverið þarf 65 megavött raforku, sem samsvarar hálfri Sultartangavirkjun, og er sú orka þegar til í kerfinu.

Undirritun þýðir að framkvæmdir, sem kalla á ráðningu 150 starfsmanna, myndu hefjast í Helguvík í maímánuði. Slík ákvörðun um átján milljarða króna erlenda fjárfestingu, sem yrði sú næstmesta hérlendis frá hruni, - á eftir endurnýjun álversins í Straumsvík, - yrði um leið sterk vísbending um að endurreisn atvinnulífsins væri hafin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×