Innlent

Helgi Hjörvar: „Þetta er erfitt með eins manns meirihluta“

Siv Friðleifsdóttir.
Siv Friðleifsdóttir.

„Það hlýtur að vera ríkur vilji til þess að ljúka þeim leiðangri sem lagt var upp með í samstarfinu. Sérstaklega þar sem erfiðasti hlutinn er að baki. Nú hefst uppbyggingin, en það er erfitt með eins manns meirihluta," sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, en þar var einnig rætt við Siv Friðleifsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins.

Siv sagði meðal annars að hún væri ekki sammála formanni sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, varðandi þjóðstjórn. Þá var hún einnig ósammála því að það þyrfti að boða til kosninga á árinu.

Siv telur að lýðræðinu verði best borgið með sterkri stjórnarandstöðu en ekki þjóðstjórn. Þá segir hún kosningar á þessu ári til þess fallnar að skapa óróa. Henni þykir það vondur kostur.

Þá var Siv spurð út í meintar þreifingar stjórnarmeirihlutans við Framsókn. Meðal annars var hún spurð hvort það væri satt, sem hefur heyrst, að Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, hafi rætt við hana, Guðmund Steingrímsson og Birki Jón Jónsson, um að styðja við ríkisstjórnarsamstarfið.

Siv sagði engan hafa rætt við sig. Þá tók hún oft fram að engar formlegar viðræður hefðu átt sér stað.

Helgi Hjörvar segir róðurinn erfiðann.

Spurð hvort hún ásamt Guðmundi og Birki Jóni væru að kljúfa sig frá Framsóknarflokknum sagði Siv ekki skynja það. Hún sagðist ekki finna fyrir því að það væru tvær fylkingar í flokknum og taldi þá drætti sem væru teiknaðir upp, væri vegna atkvæðagreiðslunnar um umsókn inn í ESB, þar sem þingmennirnir þrír greiddu atkvæði með frumvarpinu, en aðrir þingmenn Framsóknar gegn því.

En bæði voru þau sammála um að ríkisstjórnarsamstarfið ætti í vandræðum. Helgi Hjörvar sagði of snemmt að ræða stöðuna inna stjórnarheimilisins, þá sérstaklega í ljósi þess að VG fundar á morgun með þremenningunum.

„Við bíðum bara eftir því hvernig okkar samstarfsflokki gengur að vinna úr sínum málum," sagði Helgi á meðan Siv sagðist skynja mikinn óróa hjá VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×