Formúla 1

Button: Finnst að okkar tími sé að koma

Jenson Button þjálfar líkamann af kappi eins og aðrir Formúlu 1 ökumenn, enda mikil átök á líkamann í mótum.
Jenson Button þjálfar líkamann af kappi eins og aðrir Formúlu 1 ökumenn, enda mikil átök á líkamann í mótum. MYND: MCLAREN F1
Jenson Button varð í öðru sæti í heimsmeistaramótinu í Formúlu 1 á þessu keppnistímabili á eftir Sebastian Vettel. Hann telur að ef McLaren liðið bætir sig aðeins fyrir næsta ár þá geti liðið barist um fleiri sigra en í ár. Fyrstu æfingar Formúlu 1 liða fyrir næsta keppnistímabil verða í febrúar á Spáni.

 

„Við höfum ekki alveg náð að vinna meistaratitilinn síðustu tvö ár, en ég hef unnið nokkur mót með liðinu og finnst að okkar tími sé að koma, Við erum í góðri stöðu, þannig að við erum spenntir fyrir 2012," sagði Button í frétt á autosport.com.

Button gekk til liðs við McLaren eftir að hafa orðið heimsmeistari með Brawn liðinu árið 2009 og hefur samtals fengið 484 stig í stigaamóti ökumanna á tveimur árum með liðinu, en Lewis Hamilton, liðsfélagi hans 467. Button hefur unnið fimm mót með McLaren og var ofar en Hamilton í stigamóti ökumanna í ár, en á eftir meistaranum Sebastian Vettel hjá Red Bull, sem varð meistari annað árið í röð. Button kann vel við sig hjá McLaren liðinu.

 

„Við höfum varið tveimur árum saman og tíminn hefur flogið. Það er nokkuð ógnvekjandi að tvö keppnistímabil séu þegar liðinn. Þegar ég kom til McLaren var markmið mitt að vinna mót og að keppa með liði sem gæfi mér færi á að vinna meistaratitilinn. Mér finnst ég hafa bætt mig og með smá bætingu þá getum við barist um fleiri sigra 2012."

Button á japanska kærustu sem heitir Jessica Michibata og hefur því sterk tengsl við Japan. Hann vann japanska kappaksturinn á Suzuka brautinni í ár.

 

„Það var mjög sérstakt að vinna það mót á braut sem ég elska, á háhraðabraut sem á að henta Red Bull, fyrir framan japanska áhorfendur sem hafa upplifað erfiða tíma," sagði Button og vísaði þannig í náttúrhamfarirnar í Japan í mars."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×