Viðskipti innlent

Stefnir átti hæsta tilboðið í Haga

Stefnir átti hæsta tilboðið í kjölfestuhlut í Högum, en Arion banki hefur unnið að því að selja félagið undanfarna mánuði. Nokkur kergja er sögð í öðrum sem tóku þátt í söluferlinu vegna þessa, enda um að ræða dótturfyrirtæki Arion banka.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að Arion banki tók Haga yfir fyrir rúmlega ári. Bankinn bauð síðan kjölfestuhlut til sölu og nú er allt útlit fyrir að eitt dótturfélaga þessa sama banka eignist félagið.

Vaxtaberandi skuldir Haga, sem eru í formi kúlulána með gjalddaga árið 2015, eru í dag um 12 milljarðar króna. Tilboð Stefnis hljóðaði upp á 13-14 milljarða auk yfirtöku skulda, sé miðað við verðlagningu á öllu hlutafé félagsins.

Heimildir Morgunblaðsins herma þó að Stefnir hyggist aðeins kaupa um 20-25% hlut í fyrirtækinu. Einnig hefur blaðið heimildir fyrir því að bankinn hafi hafnað tilboði í allt félagið, sem hljóðaði upp á 20 milljarða, að yfirteknum skuldum meðtöldum. Sá kaupendahópur hefði því lagt út um átta milljarða króna, hefði bankinn tekið boði hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×