Enski boltinn

Lampard: Mikilvægara að vinna Meistaradeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Frank Lampard, leikmaður Chelsea, segir að það sé mikilvægara að liðið vinni Meistaradeild Evrópu í ár frekar en að verja annað hvort enska meistaratitilinn eða bikarmeistaratitilinn.

Chelsea gerði í vikunni 1-1 jafntefli við Fulham í ensku úrvalsdeildinni og sagði Petr Cech, markvörður liðsins, að þau úrslit hefðu líklega gert það að verkum að liðið eigi ekki lengur möguleika á titlinum.

Chelsea er nú tólf stigum á eftir toppliði Manchester United og er í fimmta sæti deildarinnar.

En liðið fór létt með riðilinn sinn í Meistaradeildinni í haust og mætir í næstu viku FC Kaupmannahöfn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Hann var spurður hvort hann væri reiðubúinn að fórna enska meistaratitlinum fyrir sigur í Meistaradeildinni.

„Þetta er hræðileg spurning en ég myndi líklega gera það," sagði hann. „Ég vil helst ekki segja að annar skiptir meira máli en hinn en ég hef unnið þrjá meistaratitla og því vil ég vinna Meistaradeildina nú."

Hann telur einnig að gott gengi í Meistaradeildinni geti haft góð áhrif á gengi liðsins heima fyrir.

„Sigrar í Evrópu geta smitað af sér yfir í deildina hér heima."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×