Innlent

Gríðarlega mikilvægt að neyðarlögin haldi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Páll Árnason segir niðurstöðu Héraðsdóms í dag mikilvæga. Mynd/ GVA.
Árni Páll Árnason segir niðurstöðu Héraðsdóms í dag mikilvæga. Mynd/ GVA.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra segir að mikilvægur áfangi hafi náðst í dag þegar Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin sem sett voru 6. október 2008 væru heimil samkvæmt stjórnarskrá. Það væri gríðarlegt áfall fyrir íslenska þjóð ef neyðarlögin myndu bresta.

„Þetta er mikilvægur áfangi og gott að sjá að dómurinn fjallar ítarlega um þennan þátt og kemst að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin standast stjórnarskrá og hafi ekki gengið út fyrir það sem nauðsynlegt var til þess að forða efnahagslegu hruni,“ segir Árni Páll. 

Árni Páll segir að neyðarlögin séu mjög mikilvægur þáttur í vörnum Íslendinga og til að viðhalda hér og ná tökum á því ástandi sem skapaðist eftir hrun. „Það er mjög mikilvægt að það sé staðfest af dómstól að þau hafi ekki náð lengra en nauðsyn krafði,“ segir Árni Páll. 

Hann bindur vonir við að Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóm hvað varðar neyðarlögin. „Enda væri það gríðarlegt áfall fyrir íslenska þjóð ef neyðarlögin brystu. Þau voru sett almenningi til varnar til að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur þyrfti að bera óbærilegar byrðar vegna bankahrunsins,“ segir Árni Páll.

Árni Páll segist vita til þess að á næstu dögum fari fyrir héraðsdóm ýmiss mál sem fjalli um gidli einstakra þátta neyðarlaganna þótt stjórnvöld hafi ekki fullkomna yfirsýn yfir þau. „Þar höfum við slitastjórnina til varnar í hverju tilviki fyrir sig,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×