Enski boltinn

Forseti Barcelona vill fækka liðum í ensku úrvalsdeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sandro Rosell, forseti Barcelona.
Sandro Rosell, forseti Barcelona. Nordic Photos / Getty Images
Sandro Rosell, forseti Barcelona, er með róttækar hugmyndir um hvernig auka má vægi stórra leikja í Meistaradeild Evrópu.

Rossell er líka varaforseti samtaka knattspyrnufélaga í Evrópu og vill að leikir í Evrópukeppnum, Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA, fari líka fram um helgar.

„Við verðum að sannfæra ensku úrvalsdeildina um að fækka liðum úr 20 í 16,“ sagði Rosell í ráðstefnu sem var haldin á Doha í Katar á dögunum. „Það væri til dæmis hægt að láta Barcelona og Manchester United spila á laugardegi,“ bætti hann við en Evrópuleikir fara nú fram í miðri viku.

Hann segir að til þess að það verði mögulegt verði að fækka liðum í stærstu deildum Evrópu - á Englandi, Spáni og Ítalíu. „Það er eitthvað sem allar deildirnar verða að samþykkja. Markmiðið er að fækka liðunum í 16 svo að leikmenn fái meira andrými.“

Hann segir þó að landsliðin eigi ekki að fá að njóta góðs af þessu. „Þessir frídagar eru til þess að félagslið geti spilað fleiri vináttuleiki eða þá til að auka vægi Evrópukeppnanna. Þetta eru ekki dagar fyrir knattspyrnusambönd landanna.“

Samningur er í gildi á milli áðurnefnda samtaka og Knattspyrnusambands Evrópu um þáttöku stærstu liða álfunnar í Meistaradeild Evrópu. Sá samningur rennur út árið 2014 og er óvíst að nýr samningur verði gerður.

„Ef okkur tekst ekki að komast að samkomulagi sem hagnast báðum aðilum áskiljum við okkur rétt til að koma á fót okkar eigin keppni á milli bestu liða Evrópu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×