Erlent

Norðmenn varaðir við aurskriðum

Íbúar í Guðbrandsdal í Noregi eru beðnir um að hafa varan á því hætta er á aurskriðum nú þegar flóðin sem þar hafa geisað eru í rénum. Milljarðatjón hefur orðið í hamförunum.

Tjónið af völdum þessara flóða hefur hingað til fyrst og fremst verið fjárhagslegt og er það mesta síðan sambærileg flóð skullu á árið 1995. Einn maður, 82 ára gamall, fannst látinn í dag en hans hafði verðið saknað síðan á föstudag. Bíll hans hafði verið skilinn eftir á brúnni yfir ánna Gaus en flætt hafði yfir hana.

Fjölmargir sumarbústaðir eru á flóðasvæðunum og hafa eigendur þeirra verið varaðir við því að reyna að keyra heim í kvöld því vegir eru margir hverjir illa farnir.

Flóðin eru nú hins vegar í rénum en óttast er að eftir því sem vatnsyfirborðið lækkar í ánum aukist hættan á aurskriðum. Fólki á svæðinu hefur verið sagt að vera á varðbergi vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×