„Málflutningur af þessu tagi er ekki einungis til þess fallinn að ofurdramatísera Landsdómsmálið, heldur gerir auðvitað um leið lítið úr þjáningum og örvæntingu fórnarlamba Stalíns. Samlíking réttarhaldanna yfir Geir við sovésku sýndarréttarhöldin er því ekki bara ósanngjörn heldur einnig smekklaus,“ skrifar Hafsteinn Þór Hauksson, lektor, um samlíkingu Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ritstjóra og dómsmálaráðherra þar sem hann líkti réttarhöldunum yfir Geir við sýndarréttarhöld í Sovétríkjunum sálugu.
Hafsteinn Þór, sem er lektor í almennri lögfræði og réttarheimspeki við HÍ, frábiður sér slíka umræðu um Landsdómsmálið en áréttar að hann sé ekki að lýsa yfir stuðningi við þá fordæmalausu ákvörðun meirihluta Alþingis að draga Geir H. Haarde, einn manna, fyrir Landsdóm.
Hafsteinn skrifar í grein sinni að sýndarréttarhöldin, sem Þorsteinn líkir Landsdómsmálinu við, séu í raun svo ólík að dæmið sé til þess fallið að afvegaleiða þjóðfélagsumræðuna á Íslandi, sem er nógu eitruð af persónuníði og gífuryrðum að mati Hafsteins.
Svo skrifar Hafsteinn: „Þessar stuttu hugleiðingar nægja okkur til að sjá hversu ósanngjarnt það er að líkja réttarhöldunum yfir Geir H. Haarde við pólitísk réttarhöld á Stalínstímanum. Svo ekki sé talað um samlíkingu Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns og prófessors, þegar hann leyfði sér að líkja saksóknara Alþingis við Lavrentí Bería, mann sem leiddi saklausa menn, konur og börn í dauðann í Sovétríkjunum sálugu.“
Svo bætir Hafsteinn við: „Allt það góða fólk sem sinnir störfum í þágu grunnstofnana íslenska réttarkerfisins á heimtingu á því að um það sé fjallað af sanngirni og ekki grafið undan störfum þess með ómaklegum hætti.“
Hægt er að lesa grein Hafsteins hér fyrir neðan.
Innlent
Landsdómsumræða gerir lítið úr fórnarlömbum Stalíns
Tengdar fréttir
Landsdómur og sýndarréttarhöldin í Sovétríkjunum
Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur Landsdómur þingfest mál Alþingis gegn ráðherra.