Erlent

Ný vopn Hamas auka hættu á stórátökum

Óli Tynes skrifar
Hamas liðar í skrúðgöngu.
Hamas liðar í skrúðgöngu.
Aukin hætta er á hörðum árásum Ísraela á Gaza ströndina vegna nýrra fullkominna vopna sem Hamas samtökin hafa aflað sér. Hamas liðar skutu á dögunum leysigeislastýrðri rússneskri eldflaug á skólarútu og gjöreyðilögðu hana. Sem betur fór hafði rútan rétt áður skilað af sér stórum hópi skólabarna.

 

Fréttaskýrendur segja að ef flaugin hefði hitt rútuna meðan börnin voru um borð hefði fjöldi þeirra farist. Því hefðu Ísraelar svarað með feikilegum hefndarárásum.

 

Fram til þessa hafa Hamas samtökin aðeins haft yfir að ráða óstýrðum eldflaugum. Þeim hefur verið skotið í miklu magni yfir landamærin en sjaldnast valdið manntjóni. Með hinum nýju vopnum er hættan orðin miklu meiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×