Erlent

Hollendingar bera ábyrgð á Srebrenica

Starfsmaður lagfærir merkingar á 613 líkkistum í líkhúsi í Visoko. Borin hafa verið kennsl á líkin og verða þau grafin í minningarathöfn á sunnudag.
Starfsmaður lagfærir merkingar á 613 líkkistum í líkhúsi í Visoko. Borin hafa verið kennsl á líkin og verða þau grafin í minningarathöfn á sunnudag. nordicphotos/AFP
Hollendingar bera ábyrgð á dauða þriggja Bosníu-múslima í fjöldamorðunum í Srebrenica árið 1995. Þetta er niðurstaða hollensks áfrýjunardómstóls, sem kvað upp þann úrskurð að hollenska ríkið eigi að greiða ættingjum mannanna þriggja skaðabætur.

Hollenskir friðargæsluliðar voru í Srebrenica þegar fjöldamorðin voru framin. Þeir áttu að bera ábyrgð á öryggi fólksins í Srebrenica, sem átti að vera griðastaður á vegum Sameinuðu þjóðanna í Bosníustríðinu.

Málið getur haft víðtæk áhrif því ættingjar fleiri fórnarlamba gætu nú höfðað mál. Þá getur málið orðið fordæmisgefandi á víðari grunni, þannig að ríki sem senda fólk til friðargæslustarfa á vegum Sameinuðu þjóðanna geta nú átt á hættu að verða dregin fyrir dóm.

„Þetta er mjög gott, loksins,“ sagði Damir Mustafic, einn ættingjanna. Það hittist svo á að dómurinn féll aðeins fáum dögum áður en jarðneskar leifar föður hans verða jarðsettar í kirkjugarði í Srebrenica.

Lík hans er eitt af sex hundruð sem grafin hafa verið upp og kennsl borin á með aðstoð DNA-greiningar nú á þessu ári. Þessi lík verða öll jarðsett í minningarathöfn í kirkjugarðinum þegar þess er minnst að 16 ár verða liðin frá fjöldamorðunum, sem eru alvarlegasti stríðsglæpur sem framinn hefur verið í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Það var Hasan Nuhanovic, túlkur sem missti bæði föður sinn og bróður í fjöldamorðunum, sem höfðaði málið ásamt ættingjum rafvirkjans Rizo Mustafic, sem einnig var myrtur af Bosníu-Serbum í Srebrenica.

Rafvirkinn Mustafic var í starfi hjá hollensku friðargæsluliðunum og Nuhanovic starfaði einnig hjá þeim, en ekki faðir hans og bróðir.

Hinir myrtu voru meðal þúsunda Bosníu-Serba sem leituðu skjóls í Srebrenica, þar sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu heitið þeim öryggi.

Hinn 11. júlí árið 1995 réðust serbneskir hermenn undir stjórn Ratkos Mladic herforingja á Srebrenica. Tveimur dögum síðar létu hollensku friðargæsluliðarnir, sem voru mun færri en hersveitir Serba, undan þrýstingi innrásarliðsins og ráku þúsundir Bosníu-múslima út úr griðastaðnum. Serbnesku hermennirnir tóku karla og drengi út úr hópnum og fluttu þá burt. Um það bil átta þúsund þeirra voru síðan myrtir og grafnir í fjöldagröfum.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×