Erlent

Rúmlega 500 farþegar þurftu að fara frá borði

Rýma þurfti Mexíkóskt farþegaskip í gær eftir að skipið varð rafmagnslaust úti fyrir ströndum landsins.

Alls þurftu 515 farþegar að yfirgefa skipið í gær, en það hafði þá verið rafmagnslaust síðan kvöldið áður. Rafmagnið fór af skipinu þar sem eldur hafði komið upp í raföflum skipsins, en skamman tíma tók að ráða niðurlögum hans og engin hætta þótti stafa af eldinum.

„Það var slökkt á öllu og skipið var rafmagnslaust frá kl. 10 í gærkvöldi til morguns kl. 7.15 þegar við hófum að keyra rafalana aftur upp," segir Henry Yaniz, stjórnandi Ocean Star Cruises.

Skipið hafði nýhafið siglingar á vegum hins nýja fyrirtækis Ocean Star Cruise, en þetta var aðeins önnur ferð þess. Skipið staðnæmdist um átta kílómetra úti fyrir vesturströnd landsins á leið sinni til Acapulco. Bátar fluttu farþegana í land, en 200 manna áhöfn skipsins varð þó eftir um borð. Skipið verður dregið til Salina Cruz, þar sem gert verður við það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×