Innlent

Ummæli talin skaða fjármögnun Orkuveitunnar

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Samningaumleitan Orkuveitunnar við hóp helstu lánveitenda sinna um endurfjármögnun milljarða lána ganga ekki sem skyldi. Talið er að ummæli borgarstjóra og helstu stjórnenda orkuveitunnar um bága fjárhagstöðu hennar í fjölmiðlum hafi þar áhrif.

Orkuveitan hefur unnið að endurfjármögnun lána sinna vegna bágrar fjárhagsstöðu. Helstu lánveitendur hennar eru erlendir þróunarbankar og innlendar stofnanir. Samkvæmt heimildum fréttastofu úr fjármálaheiminum hefur endurfjármögnun lánanna ekki gengið vel, m.a. vegna ummæla stjórnenda hennar og Jóns Gnarr, borgarstjóra.

Lánveitendur fylgjast grannt með fjölmiðlaumfjöllun um Orkuveituna en erlendir lánveitendur láta þýða flestar fréttir af stöðu Orkuveitunnar. Ummæli stærsta hluthafa Orkuveitunnar, þ.e. borgarstjóra, um bága fjárhagsstöðu hennar hafa haft þær afleiðingar að helstu lánveitendur hyggjast nú ekki endurfjármagna lánin og þarf því orkuveitan að leita annarra leiða til að fjármagna sig. Borgarstjóri hefur m.a. sagt á Facebooksíðu sinni að fyrirtækið sé á hausnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu þá erlendir lánveitendur afrit af ummælunum en þau útlögðust á ensku: „Reykjavík energy is bankrupt." Þetta er m.a. talið skýra tregðu erlendra lánastofnana til að endurfjármagna lánin.

Þá herma heimildir fréttastofu ennfremur að orkuveitan og Reykjavíkurborg kanni nú möguleika á að fjármagna sig með öðrum hætti en þá er helst verið að skoða að fresta framkvæmdum, selja eignir og hækka gjaldskrá orkuveitunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×