Innlent

Regluverkið er meingallað

Stefán Gíslason
Stefán Gíslason
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Umís ehf. Environice, segir að díoxín og fúrön hafi töluverða sérstöðu meðal algengustu mengunarefna vegna þess hversu alvarleg og langvinn áhrif þau geti haft á lífríkið og heilsu fólks.

„Í raun geta menn alls ekki leyft sér að umgangast þessi efni og vísbendingar um óhóflegan styrk þeirra með viðlíka léttúð og ef um önnur og minna eitruð efni væri að ræða. Því þykir mér það mjög sláandi og reyndar ógnvekjandi hversu lítið virðist hafa verið gert með þessar niðurstöður úr díoxínmælingunum frá 2007. Sjálfsagt geta sérfræðingar rökrætt um það hver séu eðlileg viðmiðunarmörk fyrir díoxín. Skoðun mín er einfaldlega sú, að ef díoxín og fúrön mælast einhvers staðar yfir viðmiðunarmörkum verður að grípa til aðgerða þegar í stað, hvort sem styrkur efnanna er rétt yfir viðmiðunarmörkum eða tvítugfaldur.“

Stefán telur að eðlilegt hefði verið að krefjast þegar í stað annarrar mælingar til að staðfesta niðurstöðurnar og grípa í framhaldinu þegar í stað til róttækra aðgerða til úrbóta. „Mér finnst eðlilegt og algjörlega nauðsynlegt að velta fyrir sér og fara vel ofan í saumana á því hvernig hægt var að láta þrjú aðgerðarlaus ár líða frá því að niðurstöðurnar frá 2007 lágu fyrir. Fljótt á litið sýnist mér veilan liggja fyrst og fremst í regluverkinu, þar sem ekki virðist vera gert ráð fyrir að neitt sérstakt ferli fari tafarlaust í gang við aðstæður sem þessar.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×