Innlent

Ólína segir kerfið vera að kyrkja byggðirnar

Yfir fjörutíu manns hafa misst vinnuna við gjaldþrot Eyrarodda, stærsta fyrirtækisins á staðnum.
Yfir fjörutíu manns hafa misst vinnuna við gjaldþrot Eyrarodda, stærsta fyrirtækisins á staðnum.
„Það má ekki dragast lengur að koma á gagngerum breytingum á fiskveiðistjórn okkar, kerfið er að kyrkja byggðirnar,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingu, á Alþingi í gær.

Tilefnið var gjaldþrot Eyrarodda, stærsta fyrirtækisins við Flateyri við Önundarfjörð.

„Þetta er enn eitt áfallið fyrir fyrrum blómlegt sjávarpláss,“ sagði Ólína en Eyrar­oddi var settur á stofn til að gera út með leigukvóta eftir að eigandi fyrirtækis sem áður var burðarás í atvinnulífi staðarins seldi 90% aflaheimilda staðarins og fluttist á brott.

Ólína sagði að þarna birtust í hnotskurn afleiðingar kvótakerfisins, það væri lokað nýliðum og kvótalaus fyrirtæki eins og Eyraroddi visnuðu upp. „Hér hefðu frjálsar handfæraveiðar hjálpað upp á sakirnar og þar er ég að tala um alfrjálsar handfæra­veiðar smábáta,“ sagði Ólína.

Flateyri væri nálægt gjöfulum fiskimiðum sem íbúar fengju ekki að bjarga sér sjálfir og nýta.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG, tóku undir með Ólínu. Jón sagði að Flateyri hefði eitt byggðarlaga fengið hámarksúthlutun byggðar­kvóta. Önnur fyrirtæki en Eyraroddi gætu nýtt sér það.

Lilja sagði að íbúar Flateyrar hefðu byggt upp fiskvinnslufyrirtækin og sjávarútveginn. Þeir ættu fullan rétt á að hafa atvinnu áfram og búa við öryggi. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×