Innlent

Atvinnulausir Kópavogsbúar fá frítt í sund

Kópavogsbúar sem eru á atvinnuleysisskrá og með 100% bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði geta fengið ókeypis þriggja mánaða kort í sund og líkamsrækt sem og þriggja mánaða bókasafnsskírteini.

Reglur þar að lútandi voru staðfestar í bæjarráði Kópavogs í morgun.

Samkvæmt reglunum þarf umsækjandi að hafa átt lögheimili og aðsetur í Kópavogi síðastliðna þrjá mánuði. Þá þarf hann að hafa verið á atvinnuleysisbótum í að minnsta kosti þrjá mánuði.

Sækja þarf um fríkortin hjá atvinnufulltrúum Kópavogsbæjar.

Hægt er að fá slík kort tvisvar sinnum á tólf mánaða tímabili og skulu vera þrír mánuðir á milli úthlutunartímabila.

Kópavogsbær hefur áður verið með slík ókeypis kort fyrir atvinnulausa og hafa þau verið mjög vinsæl. Með breyttum reglum var verið að hnykkja á því að þau nýtist sem best þeim sem þurfa hvað mest á þeim að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×