Innlent

26 milljarðar koma til greiðslu í ár

Áætlanir um greiðslur til Breta og Hollendinga vegna Icesave-samningsins miða við að 26 milljarðar króna komi til greiðslu úr ríkissjóði í ár.

Af þeirri fjárhæð eru níu milljarðar króna vextir vegna áranna 2009 og 2010 og bætast þeir við þá 20 milljarða sem Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) á og borgar sjálfur. Sautján milljarðar eru vegna vaxtagreiðslna þessa árs.

Greiðslur vegna Icesave verða mestar á þessu ári og lækka síðan jafnt og þétt fram til 2016 þegar lokagreiðslan, 1,8 milljarðar, verður innt af hendi.

Greiðsluáætlunin byggist á forsendum Icesave-samninganefndar Íslands um endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans, gengisþróun og fleiru.

Auk vaxtakostnaðar þarf íslenska ríkið að greiða þrjá milljarða króna vegna útlagðs kostnaðar Breta og Hollendinga við útgreiðslur til innstæðueigenda á sínum tíma. Samdist um hlut Íslendinga í þeim kostnaði.

Ekki er gert ráð fyrir greiðslum ársins í fjárlögum. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar Alþingis kemur fram að nauðsynlegt kunni að reynast að leita sérstakrar lagaheimildar vegna greiðslna ársins.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×