Innlent

Ekki sammála rökstuðningi Ríkissaksóknara

Guðrún Sesselja Arnardóttir, lögmaður Gunnars Rúnars.
Guðrún Sesselja Arnardóttir, lögmaður Gunnars Rúnars.

„Ég svo sem bjóst alveg við því að þessu yrði áfrýjað," segir Guðrún Sesselja Arnardóttir, lögmaður Gunnars Rúnars Sigurþórssonar, sem var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness af kröfu um refsingu vegna morðsins á Hannesi Þór Helgasyni. Hann var metinn ósakhæfur og dæmdur til vistunar á Sogni.



Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Í tilkynningu frá Ríkissaksóknara segir að vegna sérstöðu málsins borið saman við önnur mál þar sem deilt hefur verið um sakhæfi hafi verið ákveðið að áfrýja dómnum. „Má þar nefna að ákærði skipulagði verknaðinn með löngum fyrirvara, ákæruvaldið telur að orsakasamhengi á milli ástands ákærða og verknaðar sé óljóst og að lýsingar á háttsemi ákærða í skýrslum geðlækna og hans eigin framburði sé ekki í fullu samræmi við þær skilgreiningar sem byggt er á," segir í tilkynningu frá Ríkissaksóknara.



Guðrún Sesselja segist ekki vera sammála þessu og bendir á að í dómi héraðsdóms hafi tvær matsgerðir verið samhljóða þegar lagt var mat á geðheilbrigði Gunnars Rúnars.



Með áfrýjuninni fer Ríkissaksóknari fram á að Gunnar Rúnar verði sakfelldur í samræmi við ákæru og hann dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×