Innlent

Fréttaskýring : Fá 1,6 milljónir fyrir að leysa forsetann af

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson.
Jóhanna Sigurðardóttir
Hvernig er launagreiðslu til handhafa forsetavalds í fjarveru forsetans háttað? Þremenningarnir sem fara með forsetavald þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er ekki á landinu fá um 20 þúsund krónur fyrir hvern dag sem forsetinn er erlendis. Á síðasta ári fékk hver þeirra um 1,6 milljónir króna í aukagreiðslur vegna þessa.

Í fjarveru forsetans eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar handhafar forsetavalds. Fyrir það fá þeir greiðslur sem koma af fjárheimildum embættis forseta. Hver þremenninganna fær þriðjung af launum forsetans fyrir þá daga sem hann er erlendis.

Snemma árs 2009 lækkuðu laun Ólafs Ragnars Grímssonar úr rúmlega 1,8 milljónum á mánuði í ríflega 1,5 milljónir króna, eða um fimmtán prósent. Launin lækkuðu að ósk Ólafs Ragnars, í hlutfalli við launalækkun ráðherra í ríkisstjórninni.

Handhafar forsetavalds hafa ekki óskað eftir sambærilegri launalækkun, og fær hver þeirra því áfram þriðjung af launum Ólafs eins og þau voru fyrir lækkunina.

Þetta kom í ljós við yfirferð yfir ársreikning embættis forseta Íslands nýverið, segir Árni Sigurjónsson, skrifstofustjóri hjá embættinu. Hann segir að gerð hafi verið skrifleg athugasemd vegna þessa, en kannaðist ekki við að svar hafi borist. Laun allra starfsmanna embættis forseta lækkuðu eftir hrunið.

Staðgenglar forseta fá um 20 þúsund krónur fyrir hvern dag sem Ólafur Ragnar er erlendis. Á síðasta ári var hann utan landsteinanna í 79 daga. Handhafar forsetavalds fengu því hver um sig tæplega 1,6 milljónir króna í aukagreiðslur á síðasta ári. Það jafngildir 132 þúsunda króna launauppbót í hverjum mánuði.

Það sem af er ári hefur Ólafur Ragnar verið 22 daga erlendis. Það skilar handhöfum forsetavalds um 440 þúsund króna launauppbót.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×