Erlent

Skar typpið af og henti því í ruslakvörn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn mun sennilegast þurfa einhverja hjálp frá lýtalæknum í framtíðinni. Mynd/ Getty.
Maðurinn mun sennilegast þurfa einhverja hjálp frá lýtalæknum í framtíðinni. Mynd/ Getty.
Catherine Kieu Becker, kona frá Suður Kalíforníu í Bandaríkjunum var færð í gæsluvarðhald í gær, sökuð um að hafa byrlað eiginmanni sínum ólyfjan, bundið hann niður í rúmið sitt, skorið af honum typpið og hent því í ruslakvörn.

Jeff Nightengale, lögreglumaður í borginni Garden Grove, segir að konan hafi sett ólyfjanina í mat eiginmanns síns og gefið honum matinn skömmu áður en hún réðst á hann á mánudagskvöld. Nafn fórnarlambsins hefur ekki verið gefið upp, að sögn Daily Telegraph.

Nightengale segir að maðurinn, sem er 51 árs, hafi fundið fyrir ógleði, lagst niður á rúmið og tapað meðvitund. Eiginkonan, sem er 48 ára gömul, hafi þá bundið hendur hans og fætur við rúmið, fjarlægt fötin hans og ráðist á hann með 25 sentimetra eldhúshnífi eftir að hann vaknaði. „Maðurinn var með meðvitund þegar typpið var fjarlægt,“ segir Nightengale. Hann segir að konan hafi svo sett typpið í ruslakvörnina og kveikt á henni.

Konan hringdi svo á sjúkraliðið og benti á fórnarlambið. Manninum blæddi gríðarlega þegar sjúkraliðið kom að. Búist er við því að hann lifi ósköpin af.

Ekki er vitað hvað olli því að konan réðst með þessum hætti á manninn sinn. Þau höfðu verið gift frá því í desember en hugðust skilja. Árið 1993 varð Lorena Bobbit fræg fyrir að skera undan eiginmanni sínum í Virginíu í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×