Innlent

Umboðsmaður Alþingis sendir forsætisráðherra tóninn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Umboðsmaður Alþingis bendir forsætisráðherra á að stjórnvöld hafi haft tækifæri til aðhafast í Magma-málinu en sleppt því, í bréfi sem fréttastofa hefur undir höndum. Þá virðast hann draga það í efa að ríkisstjórnin viðhafi vandaða stjórnsýsluhætti.

Tilefni bréfs umboðsmanns til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra er kvörtun frá lögmanni Geysis Green Energy, en fyrirtækið seldi Magma Energy eignarhlut sinn í HS Orku. Lögmaðurinn vísaði í bréf efnahags- og viðskiptaráðherra til HS Orku frá júlí í fyrra þar sem segir að ríkisstjórnin sé staðráðin í að „vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans."

Eyðileggja lögmæt viðskipti

Í kvörtun sinni til umboðsmanns lýsir lögmaðurinn áhyggjum sínum um að ætlun stjórnvalda sé að eyðileggja lögmæt viðskipti Geysis Green og Magma auk þess að setja eignarrétt á hlutabréfunum í HS Orku í uppnám.

Umboðsmaður Alþingis segir í bréfinu til forsætisráðherra, sem sent var fyrr í haust en hefur ekki verið opinberað áður, að í lögum um erlenda fjárfestingu sé hvergi kveðið á um „sérstaka aðkomu ráðherra" til að skipta sér af einstöku máli gagnvart erlendum aðila sem hefur fjárfest í eignarhlut ef það hefur orðið niðurstaða nefndar um erlenda fjárfestingu að fjárfestingin gangi ekki gegn ákvæðum laganna. Þá vísar umboðsmaður til þess að samkvæmt lögunum hafi efnahags- og viðskiptaráðherra haft tækifæri til að stöðva fjárfestinguna, en ekkert aðhafst og vísar þar til tímafresta sem koma skýrt fram í lögum um erlenda fjárfestingu. (34/1991).

Spyr hvort vandaðir stjórnsýsluhættir hafi verið viðhafðir

Í bréfinu segir umboðsmaður jafnframt að við meðferð málsins reyni á álitaefni um vandaða stjórnsýsluhætti, þ.e að borgarinn, hvort sem það er einstaklingur eða lögaðili, „geti gengið út frá því að að valdbær stjórnvöld hafi afgreitt mál hans í samræmi við gildandi lög og að þau séu ekki jafnframt með yfirlýsingar þar sem efast (sé) um lögmæti þeirrar afgreiðslu." Þá vísar umboðsmaður til reglna um málshraða og hvort þær reglur setji ekki stjórnvöldum skorður varðandi yfirlýsingar um að endanleg afstaða þeirra liggi ekki fyrir þegar mál hafi hlotið þá meðferð hjá stjórnvöldum sem lög kveði á um, en þar er umboðsmaður að vísa til þess að málsmeðferð við sölu á HS Orku hafi verið í samræmi við gildandi lög.

Umboðsmaður óskar jafnframt eftir skýringum forsætisráðherra á hvaða lagagrundvelli ríkisstjórnin hafi stofnað sérstaka nefnd sem fjalla átti um lögmæti kaupa Magma á HS Orku. Þá gerir umboðsmaður athugasemdir við að nefndin hafi átt að kynna niðurstöður sínar fyrir forsætis- og fjármálaráðherra þegar málefnið og framkvæmd laga um erlenda fjárfestingu heyri undir efnahags- og viðskiptaráðherra. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur forsætisráðuneytið svarað bréfinu, en fréttastofa hefur ekki fengið afrit af svari ráðherrans.

Athygli hefur vakið að Björk Guðmundsdóttir og félagar hafa hvatt ríkisstjórnina til að vinda ofan af kaupum Magma á HS Orku og hafa fært þeim 50 þúsund undirskriftir með hvatningu þess efnis. Hins vegar hefur verið bent á að til þess að taka HS Orku eignarnámi þurfi að greiða Magma bætur, þ.e fullt verð, í samræmi við ákvæði stjórnarskrár en fjárhæðin gæti verið á bilinu 30-50 milljarðar króna. Í þessu samhengi má benda á að heildarniðurskurður íslenska ríkisins vegna fjárlaga þessa árs nemur þrjátíu milljörðum króna. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×