Innlent

Ætla að syngja auðlindirnar aftur til þjóðarinnar

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Gestir karaókímaraþons fögnuðu ákaft þegar ljóst varð að þrjátíu og sjö þúsund manns höfðu skrifað undir áskorun til stjórnvalda um eignarhald á orkuauðlindum og nýtingu þeirra. Fjölmargir tóku þátt í fjöldasöng, þar á meðal Björk og Megas.

Þrjátíu og sjö þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til stjórnvalda um eignarhald á orkuauðlindum og nýtingu þeirra. Undirskriftum fjölgaði verulega eftir að karaókímaraþon til stuðnings málefninu hófst á fimmtudag í norræna húsinu.

„Við viljum að fólkið fái að ákveða sjálft hvort það vilji halda auðlindunum; hvernig eigi að nota þær og nýtinguna. Við verðum hérna til miðnættis," segir Björk Guðmundsdóttir og tekur fram að fjölmargir aðrir bæjir hafi bæst við karaókíið. „Talan fer líklegast ennþá hærra upp. Við ætlum að syngja auðlindirnar aftur til okkar."

Enn er sungið í norræna húsinu en talið er að um fimmtán hundruð manns hafi lagt leið sína þangað í dag. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar umsjónarmenn maraþonsins tilkynntu um fjölda undirskrifta og hvatti Björk gesti Norræna hússins til hópsöngs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×