Innlent

Íslenskur húmor fer illa í breska gagnrýnendur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aðalpersónur Næturvaktarinnar, þeir Ólafur Ragnar og Georg Bjarnfreðarson. Mynd/ Anton.
Aðalpersónur Næturvaktarinnar, þeir Ólafur Ragnar og Georg Bjarnfreðarson. Mynd/ Anton.
Næturvaktin í leikstjórn Ragnars Bragasonar lagðist greinilega misvel í Breta. Fyrsti þátturinn í seríunni var sýndur á sjónvarpsstöðinni BBC 4 í gær. „Orðalag og tungumálið er almennt er jafnan stærsta atriðið sem fær okkur til að hlæja, þannig að Næturvaktin, sem er íslenskur skemmtiþáttur með texta, er dálítil áhætta," segir Brian Viner, gagnrýnandi breska blaðsins Independent. Hann efast hins vegar ekkert um það að Íslendingum finnist þátturinn fyndinn. „Mér fannst það hins vegar ekki," segir hann.

Einnig er fjallað um Næturvaktina á vefnum Artdesk. Þar segir að þátturinn sé vel leikinn og ágætur að ýmsu leyti. Hins vegar sé hann ekki nógu fyndinn. Gagnrýnandinn segir að ekki sé hægt að hlæja að þessum Næturvaktinni með sama hætti og hægt er að hlæja að þáttunum The Office og Flight of the Conchords.

Sýningar á Næturvaktinni halda áfram í þessari viku og er gert ráð fyrir að tveir þættir verði sýndir á hverju kvöldi allt til vikuloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×