Erlent

Krefjast þess að Clarke segi af sér

MYND/AP
Hörð gagnrýni beinist nú að breska dómsmálaráðherranum Ken Clarke, en skilja mátti á honum í viðtali við BBC í morgun, að hann teldi sumar nauðganir alvarlegri en aðrar. Ráðherann, sem er íhaldsmaður, hefur hinsvegar neitað að biðjast afsökunar á ummælunum en formaður Verkamannaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu, vill að hann segi af sér.

Clarke kom aftur í viðtal á BBC skömmu eftir að hann lét ummælin falla þar sem hann vildi árétta að allar nauðganir væru alvarlegir glæpir. Hann vildi þó ekki viðurkenna að hann hefði haldið öðru fram í fyrra viðtalinu.

Í viðtalinu var Clarke að ræða tillögur stjórnarinnar um að gefa nauðgurum sem játa brot sín helmings afslátt á fangelsisdómi. Í Bretlandi er staðan sú í dag að þegar nauðgarar gangast við glæpnum fá þeir afslátt af fangavistunni sem nemur allt að einum þriðja af dómnum.

Þegar honum var í viðtalinu bent á að þetta þýddi að flestir nauðgarar myndu fá frelsi að fimmtán mánuðum liðnum, miðað við að meðal lengd fangelsisdóma fyrir nauðgun séu fimm ár, sagði Clarke: „Þá eru nauðganir á stefnumótum innifaldar, 17 ára menn að sofa hjá fimmtán ára stelpum...“ og hann bætti við: „Þegar um er að ræða alvarlega nauðgun, með ofbeldi og þegar farið er gegn vilja konunnar, þá eru dómarnir miklu lengri.“

Þegar fréttakonan sem tók viðtalið greip fram í fyrir Clarke og sagði: „Með fullri virðingu, nauðgun er nauðgun“, svaraði Clarke að það væri ekki rétt og tók dæmi af fullorðnum manni sem svæfi hjá fimmtán ára stúlku með fullu samþykki hennar. Það væri ekki alvarlegur gæpur þrátt fyrir að það væri skilgreint sem nauðgun.

Raunar hefur einnig verið bent á að dómsmálaráðherrann fari þarna með rangt mál þar sem brot af þessu tagi séu alls ekki skilgreind sem nauðgun, heldur kynferðisbrot af öðru tagi.

Þessi ummæli hafa fallið í afar grýttan jarðveg í Bretlandi í dag og meðal annars sagði Ed Miliband formaður Verkamannaflokksins að dómsmálaráðherra sem talaði svona gæti ekki talað fyrir hönd kvenna í landinu.

Hér má hlusta í Clarke í viðtalinu við BBC.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×