Innlent

Nemendur úr Verzló með hæstu einkunn

Nemendur Verzló hafa mælst með hæstu meðaleinkunn í könnun HÍ síðustu þrjú skólaár.fréttablaðið/gva
Nemendur Verzló hafa mælst með hæstu meðaleinkunn í könnun HÍ síðustu þrjú skólaár.fréttablaðið/gva
Þeir nemendur Háskóla Íslands (HÍ) sem koma úr Verzlunarskólanum mældust með hæstu meðaleinkunn í úttekt HÍ á nemendum fimm framhaldsskóla síðustu þrjú ár. Skólaárið 2009 til 2010 var meðaleinkunn þeirra 4.115 nemenda úr Verzlunarskólanum 7,04. Nemendur frá Menntaskólanum Hraðbraut, sem voru 692 talsins, mældust með lægstu meðaleinkunnina, 6,35.

Hinir framhaldsskólarnir í úttektinni voru Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Fjölbrautaskólinn við Ármúla.

Könnunin var gerð vegna fyrir­spurnar menntamálaráðuneytisins í tengslum við úttekt Ríkisendurskoðunar og menntamálanefndar Alþingis á fjármálum Menntaskólans Hraðbrautar.

Meðaleinkunnir nemenda innan deilda sýna að nemendur úr Verzlunarskólanum voru oftast með hæstu meðaleinkunn, eða í 11 deildum af 25. Nemendur Hraðbrautar voru oftast með lægstu meðaleinkunn, eða í 8 deildum. Þeir voru þó með hæstu meðaleinkunn í 7 deildum. Nemendur úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla voru með lægstu einkunn í 7 deildum og hæstu í tveimur.

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri og eigandi Menntaskólans Hraðbrautar, segir tölurnar lítt marktækar.

„Úrtakið er lítið. Margir nemendur okkar fóru í námsgreinar þar sem kröfur um háar einkunnir eru minni. Það er til að mynda óvenju hátt hlutfall í læknisfræði, þar sem einkunnirnar eru lægri en til dæmis í félagsfræði,“ segir Ólafur.

Einungis 3 prósent nemenda Hraðbrautar völdu Félags- og mannvísindadeild, en þar mældust þeir með hæstu meðaleinkunn, 6,99.

5 prósent þeirra völdu læknisfræði og voru þar með næsthæstu meðaleinkunn, 8,21. 6 prósent fóru í hjúkrunarfræði og voru þeir nemendur Hraðbrautar einnig með næsthæstu meðaleinkunn í deildinni, 7,03.

sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×