Innlent

Vestfirðingar buðu lægst í Vestfjarðaveg

Staðurinn er hluti af kvikmyndasögu Íslands því þarna voru fyrir 20 árum tekin upp atriði í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar.
Staðurinn er hluti af kvikmyndasögu Íslands því þarna voru fyrir 20 árum tekin upp atriði í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar.

Verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði átti lægsta boð í gerð nýs vegar um Skálanes á sunnanverðum Vestfjörðum, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í gær. KNH býðst til að leggja veginn fyrir 116 milljónir króna, sem er 68 prósent af kostnaðaráætlun, en hún hljóðar upp á 170 milljónir króna.

Fimmtán fyrirtæki buðu í verkið sem felst í því að leggja 2,6 kílómetra vegarkafla milli Kollafjarðar og Gufufjarðar og á vegurinn að vera tilbúinn fyrir 1. nóvember næstkomandi. Tíu tilboð reyndust undir kostnaðaráætlun en fimm tilboð voru hærri en hún. Næstlægsta boð, frá Glaumi í Skagafirði, var tveimur milljónum króna hærra en það lægsta.

Vegarkaflinn um Skálanes er einn sá seinfarnasti á leiðinni milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur. Hann er bæði mjór og hlykkjóttur og með svo mörgum blindbeygjum að ökumönnum er ráðlagt að aka þar um á aðeins 30 kílómetra hraða. Þá stendur gamalt verslunarhús svo þétt við vegkantinn að bílar nærri strjúkast við það.

Staðurinn er kunnur úr kvikmyndinni Börn náttúrunnar en þar voru tekin upp atriði með þeim Gísla Halldórssyni og Sigríði Hagalín, sem léku vistmenn elliheimilis á flótta undan lögreglu á stolnum Willys-jeppa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×