Innlent

Skuldir dagaði uppi í læstum skáp

Guðrún segir mannleg mistök hafa leitt til að hún fékk hagstæðari vaxtakjör en aðrir vegna lóðakaupa er hún var fjármálastjóri hjá Kópavogsbæ.
Guðrún segir mannleg mistök hafa leitt til að hún fékk hagstæðari vaxtakjör en aðrir vegna lóðakaupa er hún var fjármálastjóri hjá Kópavogsbæ.
„Ég er að sjálfsögðu að kalla eftir frekari skýringum á þeim og met stöðuna þegar þær liggja fyrir,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, um vaxtakjör sem Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri naut vegna lóðakaupa af bænum í fjármálastjóratíð sinni.

Ármann segist fyrst nú hafa fengið gögn um vaxtakjörin á sitt borð og undirstrikar að upplýsingarnar hafi verið teknar saman að beiðni Guðríðar Arnardóttur, þáverandi formanns bæjarráðs, í byrjun ágúst í fyrra.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að Guðrún fékk hagstæðari vexti en tíðkuðust hjá bænum á um 2,6 milljóna króna skuldabréfum sem gefin voru út 1996 vegna lóðakaupa. Einnig að hún borgaði ekki vexti af um 1,1 milljóna króna gatnagerðargjöldum sem hún greiddi upp á árunum 1999 til 2002. Skýrði hún vaxtakjörin á skuldabréfunum sem "mannleg mistök" og vaxtaleysið á gatnagerðargjöldunum sem bætur fyrir tafir vegna deiliskipulagsbreytinga.

Haft var eftir Guðríði Arnardóttur í Fréttablaðinu í gær að meðal annars þessi mál Guðrúnar hafi orðið til þess að Samfylkingin hafi ekki lengur stutt hana til setu í bæjarstjórastólnum.

„Ég hef engar forsendur til að draga þessar skýringar í efa að svo komnu máli,“ segir Guðríður þó nú um skýringar Guðrúnar.

„En enn sem fyrr er ég þeirrar skoðunar að málið þurfi að skoða miklu betur og meðal annars fara rækilega yfir það í hvaða tilfellum heimildir til niðurfellinga vaxta voru veittar og þá af hverjum.“

Upphafspunktur skoðunarinnar á kjörum Guðrúnar Pálsdóttur í lóðaviðskiptunum var í læstum skjalaskápi á bæjarskrifstofunni. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte var ráðið í fyrra til að kanna skjöl úr skápnum sem er steyptur inn í vegg í opnu rými á skrifstofu bæjarins.

„Einn lykill er til að skápnum sem er tvískiptur, annar hlutinn er geymdur inni á skrifstofu fjármálastjóra og hinn í skjalageymslu bæjarins. Margir starfsmenn vita af þessari ráðstöfun og hafa þannig hugsanlega aðgang að skápnum en enginn ætti að fara í skápinn nema með vitneskju fjármálastjóra,“ segir í skýrslu Deloitte.

Endurskoðunarfyrirtækið rannsakaði ávísanir, tryggingavíxla og skuldabréf úr skjalaskápnum. Komu meðal annars í ljós um og yfir tíu ára gamlar ávísanir sem bærinn hafði aldrei innleyst. Ólag virtist á ýmsum verðbréfum.

„Skuldabréfið virðist hafa dagað uppi í skjalaskápnum án frekari innheimtuaðgerða,“ segir sem dæmi um 911 þúsund króna skuldabréf frá því á árinu 2002.

„Teljum við augljóst að sú meðhöndlun á gögnum sem hér hefur verið lýst er ekki ásættanleg,“ segir Deloitte sem leggur til að um slík viðskipti verði settar skýrar og samræmdar reglur og farið sé að öllu leyti eftir þeim reglum.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×