Innlent

Týnda konan leitaði að sjálfri sér

Leit að erlendri konu sem hafði verið saknað síðan um hádegi í gær var hætt um klukkan þrjú í nótt þegar í ljós kom að hún var alls ekki týnd. Hún hafði þvert á móti hjálpað samviskusamlega til við að leita að sjálfri sér.

Konan sem er tvítug hafði verið í áætlunarferð. Þegar hún skilað sér ekki aftur í rútuna á tilsettum tíma var hafin leit að henni. Björgunarsveitir voru kallaðar út og óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leitina.

Í nótt kom svo í ljós að konan var ekki týnd heldur í hópi ferðamannanna. Hún hafði farið á snyrtinguna á meðan hópurinn stoppaði og skipt þar um föt og lagað sig. Það virðist hafa orðið til þess að enginn þekkti hana aftur og því var hafin leit að henni.

Hún var hins vegar allan tímann í hópi ferðamannanna sem ýmist hófst við í rútunni á meðan á leitinni stóð eða aðstoðaði við hana. Þannig kom það til að þessi týnda kona leitaði að sjálfri sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×