Innlent

Norðmenn gera Ísland að olíuríki með sögulegum sáttmála

Kristján Már Unnarsson skrifar
Noregur ætlar að gera Ísland að olíuríki. Íslendingum hjálpað til að verða ríkir. Svo segir í fyrirsögn í frétt á viðskiptasíðu Verdens gang, útbreiddasta blaðs Noregs, í dag í tilefni væntanlegrar undirritunar samnings þjóðanna í næstu viku um þátttöku Noregs í olíuleit í lögsögu Íslands.

Samningnum er lýst sem sögulegum fyrir Noreg þar sem með honum muni norska ríkið í fyrsta sinn taka þátt í olíuleit utan eigin lögsögu. Svo merk segir blaðið þessi tímamót að norski olíumálaráðherrann Ola Borten Moe hafi ákveðið að gera sér sérstaka ferð til Íslands til að vera við undirritunina þann 4. janúar „til að varpa ljóma á atburðinn", eins og það er orðað, en greint var frá heimsókninni í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Ekki aðeins muni Íslendingar fá norska hjálp heldur verði hún veitt af fremstu sérfræðingum sem norska ríkið geti boðið upp á; frá ríkisolíufélaginu Petoro. Íslendingar muni nú fá að njóta góðs af sérþekkingu norska olíurisans.

VG vitnar í talsmann Petoro, Sveinung Sletten, sem segir að Norðurslóðir kunni að geyma mestu ófundnu olíulindir jarðar. Þær séu minna rannsakaðar en önnur olíusvæði og því sé óvissan mikil. Ekkert sé hægt að fullyrða um möguleg verðmæti meðan engar boranir hafi farið fram.

Fleiri norskir fjölmiðlar fjalla um málið í dag, þeirra á meðal olíuvefmiðillinn Offshore, undir fyrirsögninni „Sögulegur olíusamningur við Ísland".


Tengdar fréttir

Norski olíumálaráðherrann kemur vegna Drekaleyfanna

Olíumálaráðherra Noregs kemur til Íslands í næstu viku, ásamt tíu manna sendinefnd, til að vera við athöfn þegar fyrstu olíuvinnsluleyfin í íslenskri lögsögu verða gefin út. Noregur er fimmta mesta olíuútflutningsríki jarðar, þar er olíuiðnaðurinn mikilvægasta atvinnugreinin, og embætti olíumálaráðherrans eitt það áhrifamesta í landinu.

Leyfisveiting á Drekasvæðinu vekur athygli olíuheimsins

Tilkynning íslenskra stjórnvalda um veitingu sérleyfa til olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefur vakið athygli fjölmiðla í Bretlandi og helstu vefmiðla í olíugeiranum. Netmiðill breska útvarpsins, BBC, og skoski miðillinn The Scotsman, eru meðal þeirra sem birt hafa frétt um málið, en einnig viðskipta- og olíufréttamiðlar eins og World-Oil, Natural Gas Europe og Offshore Magazine.

Stórþingið samþykkti einróma að leita olíu með Íslendingum

Norska Stórþingið samþykkti einróma þátttöku norska ríkisins í olíuleit og olíuvinnslu í lögsögu Íslands á Drekasvæðinu. Orkumálastjóri segir þetta með stærstu atburðum í olíumálum Íslendinga til þessa. Ríkisstjórn Noregs var áður búin að samþykkja fyrir sitt leyti á ríkisstjórnarfundi að norska ríkið nýtti sér ákvæði Jan Mayen-samkomulagsins um 25% þátttöku í sérleyfum á Drekasvæðinu.

Aðild Norðmanna sýnir að þeir hafa trú á olíu á Drekasvæðinu

Ákvörðun norskra stjórnvalda að taka þátt í olíuleit á íslenska Drekasvæðinu er fagnað af væntanlegum leyfishöfum, sem segja þetta skilaboð til olíufélaga heims um að mikils sé að vænta. Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir að fengur sé að fá Noreg með í verkefnið. Það er í samræmi við samkomulag um gagnkvæman 25 prósenta rétt á afmörkuðu svæði sem norsk stjórnvöld tilnefndu í morgun Petoro til þátttöku en félagið er að öllu leyti í eigu norska ríkisins og var áður hluti af Statoil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×