Körfubolti

Bandaríkin og Spánn mætast í úrslitaleiknum á öðrum leikunum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar.
LeBron James fagnar. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bandaríkin og Spánn spila um gullið í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna í London en þetta varð ljóst í dag. Spánverjar unnu Rússa og Bandaríkjamenn fóru illa með Argentínumenn. Lið Bandaríkjamanna og Spánverja mætast því í úrslitaleiknum á öðrum Ólympíuleikunum í röð.

Bandaríkin vann sannafærandi 26 stiga sigur á Argentínu, 109-83. Argentínumenn stóðu í þeim bandarísku fram í hálfleik þegar Bandaríkin var sjö stigum yfir, 47-40. Eins og oft áður setti bandaríska liðið í fluggírinn í þriðja leikhlutanum sem liðið vann 27-17 og gerði svo gott sem út um leikinn. Carmelo Anthony skoraði síðan þrjá þrista á 40 sekúndum í upphafi fjórða leikhluta og staðan var orðin vandræðaleg fyrir þá argentínsku.

Kevin Durant var stigahæstur hjá Bandaríkjamönnum með 19 stig, LeBron James var með 18 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og Carmelo Anthony skoraði 18 stig. Kobe Bryant lét sér nægja 13 stig. Manu Ginóbili skoraði mest fyrir Argentínu eða 18 stig.

Spánn vann átta stiga sigur á Rússlandi, 67-59, í fyrri undanúrslitaleiknum en það dugði Rússunum ekki að vera 31-20 yfir í hálfleik. Spánverjar unnu seinni hálfleikinn 47-28 og þar með leikinn með átta stigum. Pau Gasol var stigahæstur hjá Spáni með 16 stig auk þess að taka 12 fráköst en José Calderón kom næstur með fjóra þrista og 14 stig. Alexander Kaun var stighæstur Rússa með 14 stig en Andrei Kirilenko skoraði 10 stig og tók 8 fráköst.

Bandaríkjamenn eru ríkjandi Heims- og Ólympíumeistarar en Spánverjar hafa unnið síðustu tvær Evrópukeppnir. Það bíða því margir spenntir eftir því hvort spænska liðinu takist að stoppa stórskotalið Bandaríkjanna á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×